Nýjar gervitennur - Við hverju má búast ?
Í ÖLLUM tilvikum er tilfinningin með nýju tennurnar ólík því að vera með þær gömlu sem munnurinn er búinn að venjast. Það þarf að gefa sér tíma til að aðlagast en það tekur mislangan tíma, hjá sumum tekur það einungis nokkra daga en öðrum getur það tekið nokkra mánuði.
Þegar gengið er út með nýjar gervitennur má gera ráð fyrir að eiga eftir að koma aftur í stutta heimsókn til að aðlaga gómana. Stundum þarf að koma oftar en einu sinni og í einstaka tilvikum mörgum sinnum þar til búið er að aðlagast vel.
Áskoranir á aðlögunartímabilinu
Tal : Þú hljómar ef til vill öðruvísi en með gömlu tennurnar, það mun lagast og þú munt tala aftur eins og áður
Tygging : Það getur verið óþægilegt að tyggja matinn með nýju tennurnar en með æfingunni kemstu upp á lagið með að nota þær rétt.
Særindi : Í mörgum tilvikum kemur nuddsár út frá gómunum en það er lítið mál að laga það með því að mæta til að fá slípað af þar sem er að meiða.
Laust : Nýir tanngómar eiga það til að vera á hreyfingu fyrst um sinn en það er vegna þess að tunga og aðrir vöðvar í munninum eru ekki enn búnir að læra inn á nýjar aðstæður. Það þarf að gefa vöðvaminninu tíma til að læra að styðja við nýju tennurnar.
Stórt : Í flestöllum tilvikum er tilfinningin með nýju tennurnar eins og þær séu of stórar og fyrirferðamiklar, eins og það sé of mikið upp í munninum. Ástæðan er sú að þegar nýjar tennur eru smíðaðar er tekið mát sem passar nákvæmlega upp í munninn eins og aðstæður eru núna, en ekki eins og þær voru þegar þú fékkst gömlu tennurnar. Síðan þá hafa orðið breytingar og rýrnun á vef og beini og því þarf að bæta það upp með meira efni í tanngómunum. Tilfinningin venst með tímanum og áður en þú veist af eru nýju tennurnar orðnar eins og hluti af munnholinu.
Útlit : Nýju tennurnar verða aldrei nákvæmlega eins og þær gömlu, sama hversu mikið er lagt í að fara eftir útliti gömlu tannanna. Þú munt alltaf sjá einhvern mun en það er ekki víst að aðrir í kring um þig geri það.
Hvað er hægt að gera til að flýta fyrir aðlögun ?
Koma til að láta slípa af þar sem særir : Þú kemur aldrei of oft og alltaf velkomið að hafa samband. Það tekur stutta stund að droppa við hjá mér og ég slípa af þar sem meiðir. Best er að koma um leið og byrjar að særa, ekki draga það að koma eða harka af þér! Það kostar ekkert aukalega að koma meðan þú ert að venjast tönnunum.
Lesa upphátt og tala mikið : Því meira sem þú talar upphátt því fyrr hljómar þú eins og áður. Lestu til dæmis upphátt texta fyrir sjálfan þig.
Byrja á litlum, mjúkum bitum : Til að æfa sig að tyggja með nýju tönnunum er gott að byrja á mjúkri fæðu eins og fisk eða kjötbollum og skera matinn í litla bita. Tyggðu matinn í báðum hliðum í einu en það hjálpar til við að halda gervigómunum stöðugum. Eftir því sem þú kemst upp á lagið með að tyggja skaltu stækka bitana og prófa harðari fæðu.