Smíði á nýju tanngervi

  • 1. tími: Við hittumst og tölum saman um óskir og væntingar þínar. Ég skoða núverandi tannsett og munnhol. Ég segji þér hvaða möguleikar eru í boði og gef þér kostnaðaráætlun. Þú getur annað hvort hugsað málið og komið aftur seinna, eða ef þú ert ákveðin/n þá tek ég fyrstu mátin.

  • 2. tími:  Þá nota ég sérsmíðaðar mátskeiðar til að taka mun nákvæmari mát en síðast. Fyrst móta ég brúnirnar eins og þær eiga að vera og svo tek ég mát. Þetta eru mátin sem ég nota til að smíða tanngervið eftir.

  • 3. tími: Nú hef ég búið til svokallaða bitrima sem eru vaxplötur sem verða undirstaðan fyrir tennurnar. Ég móta vaxið með því að bræða það til að fá rétta staðsetningu fyrir tennurnar og stuðning fyrir kinnar og varir. Þegar bitrimarnir eru tilbúnir tek ég samanbit, sem er afstaðan á milli efri og neðri kjálka. Í lokin veljum við svo í sameiningu lit og form tannanna. 

  • 4. tími: Þá eru tennurnar komnar í vaxrimana og tilbúið til mátunar. Í þessum tíma er hægt að breyta uppstillingu tannanna þar til þú ert sátt/sáttur við útkomuna.

  • 5. tími: Nú eru tennurnar tilbúnar en fyrst þarf að máta og fínstilla þær, stundum þarf að slípa af á stöðum sem þrýstir á góminn eða slípa bitfleti til að jafna samanbitið.

  • Það þarf alltaf að gera ráð fyrir að þurfa að mæta aftur næstu daga, jafnvel nokkrum sinnum til að láta stilla góminn enn betur af en algengt er að það komi upp særindi fljótlega eftir að þú færð nýju tennurnar og byrjar að nota þær.

  • Næstu dagana á eftir muntu þurfa að venjast tönnunum og læra að nota þær, tyggja og tala upp á nýtt en það venst sem betur fer í flestum tilvikum fljótt. 

Fóðrun

  • Eftir að búið er að ganga úr skugga um að þörf sé á fóðrun þá mætir þú að morgni dags. Ég móta brúnirnar á gómnum upp á nýtt og set svo mátefni innan í góminn og tek mát. Þú skilur svo tennurnar eftir hjá mér og kemur aftur seinnipart dags til fá tennurnar aftur. Eins og með nýsmíðaðar tennur þarf að máta og fínstilla þær, stundum þarf að slípa af á stöðum sem þrýstir á góminn eða slípa bitfleti til að jafna samanbitið.Það sama gildir um nýfóðraðan góm eins og nýsmíðaðaðan að það þarf að gera ráð fyrir að þurfa að mæta aftur næstu daga, jafnvel nokkrum sinnum til að láta stilla góminn enn betur af en algengt er að það komi upp særindi eftir nýfóðraðan góm.

Viðgerð

  • Við mælum okkur mót, ég reyni alltaf að koma þér að sem allra fyrst ef þú ert með brotinn góm og læt það ganga fyrir. 

  • Þú getur annaðhvort beðið inni á biðstofu eða kaffistofu á meðan ég geri við eða farið heim og ég hef samband þegar viðgerðin er tilbúin. Það fer eftir umfangi viðgerðarinnar hve langan tíma hún tekur en yfirleitt er það samdægurs sem hún er tilbúin og oft tekur það einungist hálftíma til klukkutíma.