Almennur tannsmiður starfar við að smíða gervitennur eins og heilgóma, tannparta, krónur, brýr og annað í munn eins og bithlífar, hvíttunarskinnur, tannréttingarplötur ofl. Tannsmiður tekur á móti verkbeiðni tannlæknis, steypir í mát sem kemur frá tannlækninum og smíðar svo eftir því. Tannsmiðurinn kemur svo smíðaverkinu til tannlæknisins sem sér um að máta eða aðlaga tanngervið eða stoðtækið í munni sjúklingsins.

Klínískur tannsmiður hefur lokið tannsmíðaprófi og hefur því öll réttindi sem almennur tannsmiður hefur, en klínískur tannsmiður hefur einnig lokið viðbótarnámi og hefur með því öðlast aukin réttindi. Klínískur tannsmiður tekur mát og sinnir meðferð fyrir smíði á heilgómum, pörtum og öðrum lausum tanngervum og stoðtækjum.

Klínískur tannsmiður vinnur mikið í samvinnu með tannlæknum og vísar fólki til tannlæknis ef þörf er á. Þeir sem eru alfarið tannlausir þurfa yfirleitt ekki að hitta tannlækni fyrir smíði á hefðbundnum heilgómum og fer því smíðaferlið alfarið fram hjá klíníska tannsmiðnum.

Ef eigin, náttúrulegu tennur eru enn til staðar þá vísar klíníski tannsmiðurinn viðkomandi til tannlæknis sem ástandsskoðar tennurnar og metur hvort þörf er á viðgerð eða breytingum áður en klíníski tannsmiðurinn tekur við og sér um meðferðina í samvinnu við tannlækninn.

Ef áhugi er fyrir að fá implönt og smellur í tanngervið, þá vísar klíníski tannsmiðurinn viðkomandi til tannlæknis í viðtal og skoðun og í flestum tilvikum þá hefst smíðin á smellugómnum 6-8 vikum eftir að implantaaðgerðin á sér stað.